Edda Þórunn Þórarinsdóttir, 5. R, er fædd og uppalin í Vesturbænum. Hún spilar með meistaraflokki Gróttu í handbolta og hefur haft áhuga á söng og tónlist mjög lengi. Edda var í Sönglist í Borgarleikhúsinu, Söngskóla Þorvaldar Davíðs og Söngskóla Maríu og Siggu og því ekki reynslulítil þegar kemur að sviðsframkomu. Þetta er þó í fyrsta sinn sem hún tekur þátt í Söngkeppni Skólafélagsins, en hún hyggst heilla gesti og dómara með ljúfsára laginu I Can’t Make You Love Me í útgáu Bon Iver. Fyrir tæpum áratug keppti Edda á Goslákahátíð í Vesmannaeyjum og hampaði þar öðru sætinu, auk þess sem hún er fljót að taka sviðið á hinum fjölmörgu ættarmótum sem hún hefur farið á. Hún segir stressið að sjálfsögðu vera partur af sviðsframkomu en að hún reyni að láta það ekki á sig fá. Yfirleitt er spennutilfinningin stressinu yfirsterkari, svo hún hefur að sjálfsögðu bara gaman af ferlinu öllu! Að sjálfsögðu stefnir Edda alla leið og ætlar að gera sitt allra besta á sviðinu og sanna fyrir MR-ingum að hún geti verið fulltrúi þeirra í Söngkeppni Framhaldsskólanna.