Ingibjörg Helga Steingrímsdóttir í 6. A er enginn nýgræðingur þegar kemur að Söngkeppni Skólafélagsins, en á busaárinu sínu sigraði hún keppnina með lagið Time After Time með Cyndi Lauper. Sama ár tók hún þátt í Söngkeppni Framhaldsskólanna fyrir hönd MR. Árið 2014 tók hún þátt aftur með Páli Sólmundi, kærastanum sínum, og söng lagið You með Radiohead. Ingibjörg á sér fjölmargar fyrirmyndir í tónlist, þá allra helst félagar hennar í Radiohead. Ástæðurnar eru fjölmargar, en einna helst vegna framúrskarandi tónsmíða sem verða betri með hverri hlustun. Ef til Íslands er litið finnst henni Megas vera ódauðlegur textahöfundur og hljómsveitin Grísalappalísa vera aðdáunarverð fyrir að þora að gera nákvæmlega það sem henni sýnist á tónleikum. Í ár tekur hún Can’t Take My Eyes Off You með Frankie Valli og stefnir að sjálfsögðu á sigur.